Kjaradeilu við SA vísað til sáttasemjara

Fagfélögin vísuðu í dag kjaradeilu sinni við Samtök atvinnulífsins til ríkissáttasemjara. Tillaga þess efnis var borin upp á fundi samninganefnda í Húsi fagfélaganna síðastliðinn fimmtudag og var samþykkt samhljóða.

Á fundinum voru samninganefndir RSÍ og aðildarfélaga, VM og MATVÍS en þessi félög ganga saman til kjaraviðræðna. Undir eru 30 kjarasamningar. Saman semja þessi félög fyrir 70% iðn- og tæknifólks á almennum vinnumarkaði á Íslandi.

Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður RSÍ, setti fundinn og stýrði honum. Í pontu steig fyrstur Benóný Harðarson, forstöðumaður kjaradeildar Fagfélaganna, á eftir Kristjáni. Hann fór yfir stöðu kjaraviðræðna og kynnti með ítarlegum hætti hvernig fulltrúar samninganefndanna hafa lagt upp viðræðurnar við fulltrúa atvinnulífsins.

Eins og kunnugt er eru Fagfélögin ekki þátttakendur í svonefndri breiðfylkingu Alþýðusambands Íslands. Benóný greindi frá því á fundinum að Samtök atvinnulífsins hafi lagt á það áherslu að Fagfélögin sláist í för með breiðfylkingunni. Hann sýndi jafnframt fram á að tillaga um krónutöluhækkun, sem liggur á samningaborði SA og meirihluta ASÍ, þjónar ekki hagsmunum Fagfélaganna.

Í máli hans kom fram að þrír samningafundir við SA hafa litlu skilað. Í stuttu máli leggja Fagfélögin mesta áherslu á hóflegar launahækkanir með rauðum strikum sem stuðla eiga að lækkun stýrivaxta.

Afar líflegar umræður fóru fram á fundinum, sem stóð yfir í hálfan annan tíma. Fjölmargir samninganefndarmenn tóku til máls en í máli þeirra kom fram ríkur vilji til að leita allra leiða til að knýja á um kjarabætur með hætti sem þjónar hagsmunum iðn- og tæknifólks. Vísun deilunnar til sáttasemjara er liður í þeirri viðleitni.