Áríðandi er í öllum tilfellum sem bætur eru greiddar að fullnægjandi gögn liggi fyrir, s.s að reikningar sem er framvísað sé á nafn og fram komi tímabil, og/eða fjöldi skipta sem viðkomandi hefur sótt t.d. nudd. Vegna greiðslu dagpeninga í stað launa skal fylgja læknisvottorð, ásamt staðfestingu atvinnurekenda um að launagreiðslur hafi fallið niður.

Athugið að allir styrkir eru framtalsskyldir. Styrkir eru ekki greiddir afturvirkt þ.e. þeim skal framvísa á því ári sem að úttekt fer fram. 
Umsóknir um styrki eða sjúkradagpeninga skulu berast eigi síðar en 20 dag umsóknarmánaðar.

Dagpeningar greiðast úr sjóðnum með eftirfarandi hætti:

Dagpeningar greiðast frá þeim tíma að lögboðinni eða samningsbundinni kaupgreiðslu frá atvinnurekanda lýkur. Endurnýja þarf umsókn um dagpeninga við lok bótatímabils, (sem er 120 dagar) vari veikindi áfram. Sjóðstjórn metur hvort greitt er lengur en eitt bótatímabil og hvaða dagpeningar séu þá greiddir.

  • Upphæð dagpeninga skal tryggja tekjutap sjóðsfélaga og skal miðast við 80% af meðallaunum viðkomandi síðustu sex mánuði fyrir veikindi, skv. iðgjaldayfirliti til styrktarsjóðs. Hafi verulegar breytingar orðið á launum viðkomandi yfir þetta sex mánaða tímabil er heimilt að lengja viðmiðunartímann í allt að 10 mánuði.
  • Sé um að ræða greiðslu vegna tímabundinnar örorku er heimilt að skerða bætur sjúkrasjóðs sem því nemur. Sjúkra- eða slysadagpeningar Tryggingarstofnunar skerða ekki dagpeninga sjúkrasjóðs.
  • Vegna langvarandi veikinda maka eða barna enda missi sjóðfélagi launatekjur vegna þeirra. Sé um veikindi barna að ræða þá hafi 10 daga rétturinn verið fullnýttur, og maki eigi ekki tök á að annast barnið. Vegna veikinda maka skal við það miðað að veikindi hafi staðið í amk 2 vikur.
  • Heimilt er sjóðstjórn að greiða hluta dagpeninga ef sjóðfélagi getur ekki vegna sjúkdóms eða slyss stundað fulla vinnu.
  • Eftir að greiðslu dagpeninga úr sjúkrasjóði lýkur, öðlast sjóðfélagi ekki rétt á greiðslum úr sjóðnum að nýju fyrr sex mánuðir eru liðnir frá síðustu greiðslu.
  • Dagpeningar greiðast ekki þegar um varanlega örorku eða ellihrumleika er að ræða.
  • Viðkomandi getur auk þess átt rétt á sjúkra- eða slysadagpeningum frá Tryggingarstofnun ríkisins.

Lækniskostnaður.

Skilyrði: Að umsækjandi hafi greitt í sjóði félagsins í a.m.k. 12 síðustu mánuði.
Sjúkrasjóði er heimilt að taka þátt í kostnaði félagsmanna vegna kostnaðarsamra læknisaðgerða.
Styrkurinn er metinn hverju sinni en er þó aldrei hærri en 40% af útlögðum kostnaði, hafi kostnaður verið hærri en kr. 100.000. Ekki er þó greiddur hærri styrkur en sem nemur kr. 100.000, auk ferðakostnaðar sé um það að ræða. Styrk samkvæmt þessari reglu er að jafnaði ekki hægt að veita sama félagsmanni nema einu sinni á þriggja ára tímabili. Í þennan flokk falla líka þessir styrkir: IVF Glasa/tæknifrjóvgun, Laser augnaaðgerð, Augasteinsaðgerð, Dvöl á heilsustofnun, Heyrnartæki og Æðahnútaaðerðir.
Kostnaður vegna tannlækninga er ekki styrkur af sjóðnum.

Ferðakostnaður

Skilyrði: Að umsækjandi hafi greitt í sjóði félagsins í a.m.k. 12 síðustu mánuði.
Til að jafna aðstöðu þeirra sem búa á landsbyggðinni tekur sjúkrasjóður þátt í ferðakostnaði þeirra sem þurfa að fara landshluta á milli til aðgerða eða rannsókna að læknisráði.
Sækja verður um styrk til TR
Hafni TR greiðslu er greitt fyrir 40 til 100 km. kr. 5.000, 100 til 250 km. kr. 10.000, 250 til 400 km. kr. 17.000, og 400 km. og lengra kr. 25.000. Að hámark er greitt fyrir 25 ferðir á ári.

Við andlát sjóðfélaga skal:

Skv 15.1 í reglugerð sjúkrasjóðs er grunnfjárhæð að lágmarki 180.000. Í dag eru bæturnar 390.000.
Greiða eftirlifandi maka, eða foreldri á framfæri hins látna, lágmarksdagpeningar fyrir 90 daga.
Greiða fyrir hvert barn undir 18 ára aldri á framfæri viðkomandi, lágmarksdagpeningar fyrir 90 daga.
Skv 15.3 í reglugerð sjúkrasjóðs fjárhæð vera kr. 150.000

Styrkir:

Vegna forvarnar- og líkamsræktar:

Skilyrði: Að umsækjandi hafi greitt í sjóði félagsins í a.m.k. 12 síðustu mánuði.
Hafi viðkomandi verið fullgildur félagsmaður næstliðið ár þá á hann rétt á styrk til forvarnar, líkamsræktar, þ.e. allt að helmingi gjalds en þó aldrei meira en sem nemur 40 % af iðgjöldum s.l. 12 mánuði og aldrei hærri upphæð en kr. 30.000 á hverju almanaksári.
Styrkur verður greiddur ef félagsmaður sýnir löggilta kvittun í frumriti þar sem fram kemur að hann hafi greitt fyrir sig kort í viðurkenndri líkamsræktarstöð eða íþróttafélagi, sundkort eða skíðakort að því tilskyldu að það sé til 3ja mánaða eða lengra.
Ef viðkomandi félagsmaður getur ekki lagt fram frumrit, skal hann leggja fram afrit þar sem kemur fram hversu mikið framlag atvinnurekanda er og gildir reglan hér að ofan, þ.e. styrkur getur aldrei orðið hærri en mest helming af eftirstöðvum.

Gleraugnastyrkur.

Skilyrði: Að umsækjandi hafi greitt í sjóði félagsins í a.m.k. 12 síðustu mánuði.
Heimilt er að styrkja kaup á gleraugum. Styrkurinn er að hámarki kr. 40.000 á þriggja ára tímabili. Styrkupphæð verður aldrei hærri en 40% af greiddum sjúkrasjóðsgjöldum síðustu fjögurra ára og aldrei hærri en sem nemur helmingi af reiknisupphæð. Framvísa skal tilvísun frá lækni.

Lasergeisla aðgerðir á augum.

Skilyrði: Að umsækjandi hafi greitt í sjóði félagsins í a.m.k. 12 síðustu mánuði.
Styrkurinn er metinn hverju sinni en er þó aldrei hærri en 40% af útlögðum kostnaði, hafi kostnaður verið hærri en kr. 100.000. Ekki er þó greiddur hærri styrkur en sem nemur kr. 100.000, auk ferðakostnaðar sé um það að ræða. Styrk samkvæmt þessari reglu er að jafnaði ekki hægt að veita sama félagsmanni nema einu sinni á þriggja ára tímabili.

Sjúkranudd/þjálfun:

Skilyrði: Að umsækjandi hafi greitt í sjóði félagsins í a.m.k. 6 síðustu mánuði.
úkranudd, Sjúkraþjálfun og meðferð hjá kírópraktor. Sjúkrasjóður greiðir styrk vegna þessa gegn löggiltum kvittunum að hámarki 25 skipti á ári. Greitt er 40% af heildarkostnaði fyrir hvern tíma samkvæmt gjaldskrá sem gildir hjá TR, gegn framvísun greiðslukvittunar ásamt tilvísun frá lækni um þjálfunina.

Dvöl á heilsustofnun:

Skilyrði: Að umsækjandi hafi greitt í sjóði félagsins í a.m.k. 12 síðustu mánuði.
Greiddur er styrkur vegna dvalar á heilsustofnun t.d. NLFI. Styrkurinn sem að greiddur er einu sinni á þriggja ára fresti er 40% af reikningi en þó aldrei hærri en 85.000 kr sem er sem upphæð sem að reikningur þarf að vera að lágmarki til að teljast styrkhæfur.

Fæðingarstyrkur

Heimilt er að veita fæðingarstyrk vegna fæðingar barns félagsmanns að upphæð kr. 162.206 fyrir hvert barn.Upphæðin tekur mið af starfshlutfalli viðkomandi.
Styrkupphæðin miðast við hvert barn og miðar við að foreldri hafi stundað 100% vinnu síðastliðna 6 mánuði fyrir fæðingu barns. Styrkurinn lækkar í sama hlutfalli og starfshlutfall viðkomandi. Þurfi félagsmaður að draga úr vinnu eða hætta störfum vegna veikinda fyrir fæðingarorlof skal horfa til starfshlutfalls áður en til veikindanna kom.

Félagsmaður þarf að vera í a.m.k. 75% fæðingarorlofi til þess að eiga rétt á styrk, sé fæðingarorlof tekið hluta úr mánuði en er yfir 75% af fullum mánuði er heimilt að veita styrkinn. Fæðingarstyrkur á við um alla þá sem njóta réttinda til fæðingarorlofs úr Fæðingarorlofssjóði, þ.m.t. fæðingarorlof vegna ættleiðingar. Mögulegt er að nýta styrkinn upp að 24 mánaða aldri barns/barna.

Þegar sótt er um fæðingarstyrk skal framvísa fæðingarvottorði, staðfestingu frá fæðingarorlofssjóði um töku fæðingarorlofs og staðfestingu atvinnurekanda um að umsækjandi sé með ráðningu þar sem fram koma upplýsingar um starfshlutfall hans s.l. 6 mánuði fyrir fæðingu barns.
Ef barn fæðist andvana eftir átján vikna meðgöngu er greitt 50% af styrk.

Athygli er vakin á því að greiða þarf tekjuskatt af fæðingarstyrk og er tekjuskattur dreginn af styrkupphæð áður en styrkurinn er greiddur viðkomandi.

Sálfræðiaðstoð:

Skilyrði: Að umsækjandi hafi greitt í sjóði félagsins í a.m.k. 12 síðustu mánuði. 
Greiddur er styrkur vegna sálfræðiaðstoðar. Fyrir hvern tíma er greitt 40% af kostnaði, allt að 25 tíma.

Áfengismeðferð.

Skilyrði: Að umsækjandi hafi greitt í sjóði félagsins í a.m.k. 12 síðustu mánuði
Sömu reglur gilda og um sjúkradagpeninga

IVF meðferð.

Skilyrði: Að umsækjandi hafi greitt í sjóði félagsins í a.m.k. 12 síðustu mánuði
Sjúkrasjóður tekur þátt í IVF meðferð. Greiddur er styrkur allt að kr. 100.000 auk þátttöku í ferðakostnaði sé um það að ræða. Aldrei er þó greitt meira en helmingur af reikningi félagsmanns. Styrkþegi getur ekki sótt um að fá annan styrk vegna IVF meðferðar fyrr en að þremur árum liðnu. Gögn sem þurfa að berast eru: Skilavottorð frá lækni um fjölda meðferða og beinan kostnað vegna þeirra.