Hnífabrýnsla og eldun ofnæmisfæðis

Tvö spennandi námskeið eru á dagskrá IÐUNNAR fræðsluseturs í þessari viku. Á morgun, þriðjudag, fer fram námskeið í brýningu á hnífum. Fullt er á námskeiðið en hægt er að skrá sig á biðlista hér. Námskeiðið er frá klukkan 14:30 til 18:00, í Hótel- og matvælaskólanum í MK.

Markmið námskeiðsins er að þjálfa tækni þátttakenda í að brýna hnífa með japanskri aðferð. Farið er yfir mismunandi tegundir hnífa, egg, hörku og bit. Þátttakendur koma með eigin hnífa sem þeir brýna með steini og slípimassa þannig að þeir bíti vel og standist raksturspróf. Unnið er með 15 – 20 cm langa hnífa og best er að nota Santoku eða Chef‘s hnífa. Brýningarsteinn fylgir með námskeiðinu.

Á fimmtudaginn fer svo fram námskeið sem kennt er í fjarnámi. Námskeiðið ber yfirskriftina Fæðuofnæmi og eldun ofnæmisfæðis.

Markmið námskeiðsins er að auka þekkingu á fæðuofnæmi og fæðuóþoli, á einkennum, algengi og afleiðingum fæðuofnæmis og fæðuóþols. Í framhaldi er farið yfir úrræði og leiðbeiningar í fæðismeðferð og matreiðslu.

Námskeiðið skiptist í tvo hluta. Í fyrsta hlutanum er farið yfir skilgreiningar, helstu fæðuofnæmis- og óþolsvalda, einkenni fæðuóþols og ofnæmis, um greiningar á ofnæmi og óþoli, um fæðuofnæmi og næringu og fl. Kennari er Fríða Rún Þórðardóttir, næringarfræðingur og formaður Astma- og ofnæmisfélags Íslands.

Í seinni hlutanum er fjallað um úrræði í fæðismeðferð og matreiðslu fyrir þau sem eru með fæðuofnæmi og/eða fæðuóþol, um merkingu matvæla og vöruval og þætti sem hafa þarf að hafa í huga við matreiðslu fyrir fólk með fæðuofnæmi og fl. Kennari er Selma Árnadóttir, varformaður Astma- og ofnæmisfélags Íslands. Hægt er að skrá sig hér.