Eftirfarandi reglur gilda um úthlutun námskeiða og ferðastyrkja til MATVÍS félaga:
Fræðsluráð styrkir félagsmenn sína til náms með því að greiða niður kostnað við námskeiðahald innanlands eins og kostur er. Félagsmenn Fræðsluráðs hótel- og matvælagreina eru þeir sem greiða fullt gjald í Fræðslusjóð FHM.
Samtals getur félagsmaður sótt um niðurgreiðslu á námskeiðsgjöldum að hámarki 30.000 kr á ári. Fullan styrk kr. 40.000, má nýta á fleiri en eitt námskeið, sbr. eftirfarandi forgangsröðun:
1. Fagnámskeið FHM og Sæmundar fróða
Fræðsluráðið niðurgreiðir allan fastan kostnað við skipulag og þróun námskeiða á sviði matvæla- og veitingagreina fyrir félagsmenn FHM. Að auki fær félagsmaður sem sækir fagnámskeið á vegum Fræðsluráðs hótel- og matvælagreina eða Sæmundar fróða 40% afslátt af hverju námskeiði.
Fagnámskeið eru námskeið sem tengjast og eru hluti af faggrein viðkomandi starfsmanns. Rekstrar og stjórnunarnám er skilgreint sem fagnám í þessum reglum.
2. Fagnámskeið á sviði matvæla- og ferðaþjónustugreina haldin af öðrum aðila en FHM og Sæmundi fróða
Félagsmaður getur sótt um styrk úr Fræðslusjóði FHM til þess að sækja námskeið á sviði matvæla- og ferðaþjónustugreina sem haldin eru af öðrum aðilum en FHM og Sæmundi fróða að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:
1) Styrkur til félagsmanns, að hámarki kr. 30.000 á ári, greiðist þegar viðkomandi hefur lokið því námskeiði eða námskeiðum sem sótt er um.
2) Styrkur til félagsmanns er aldrei hærri en sem nemur 50% af útlögðum kostnaði hans hverju sinni.
3) Félagsmaður þarf að leggja fram staðfest frumrit reiknings vegna námskeiðs eða námskeiða sem sótt er um og hann hefur sannanlega greitt fyrir.
3. Ferðastyrkur vegna fagnámskeiða
Fræðsluráð hótel- og matvælagreina styrkir félagsmenn vegna ferðalaga á fagnámskeið innanlands, sbr. eftirfarandi:
a) Félagsmaður sem hefur ekki tök á að sækja fagnámskeið frá heimili sínu getur sótt um ferðstyrk.
b) Ferðastyrkur er greiddur til þeirra sem sækja fagnámskeið á viðkomandi sérsviði.
c) Ferðastyrkur miðast við rútufargjald þátttakenda til og frá viðkomandi stað þar sem kennslan fer fram.
4. Almenn námskeið
Félagsmaður sem sækir almenn námskeið og eykur með þeim hætti færi sína í starfi fær 25 % afslátt á útlögðum kostnaði sínum á viðkomandi námskeiði gegn framvísun frumrits af reikningi.
Almenn námskeið eru ýmis stoðnámskeið sem nýtast greinunum, s.s. almenn færninámskeið, samskipti og tjáning, almennt tungumálanám, meiraprófsnámskeið, almennt tölvunám, skrifstofunám o.s.frv.,
5. Tómstundanám
Félagsmaður sem sækir almenn tómstundanámskeið fær afslátt sem nemur 10 % af útlögðum kostnaði sínum á viðkomandi námskeið gegn framvísun frumrits af reikningi.
Tómstundanámskeið eru námskeið sem eru ekki starfstengd matvæla- og veitingagreinum.
Afgreiðsla umsókna
Með umsókn þarf að fylgja stafesting á greiðslum í Fræðslusjóð FHM. Fræðsluráðið metur umsóknir og áskilur sér rétt til þess að ákvarða hlutfall endurgreiðslna í hverju tilviki eða hafna umsóknum sem uppfylla ekki skilyrði til styrkja samkvæmt þessum tillögum.
Meðferð ágreiningsmála
Framkvæmdastjórn FHM fer yfir ágreinings- og álitamál sem kunna að rísa og afgreiðir mál. Deilumálum og stefnumótandi ákvörðunum er vísað til stjórnar FHM til lokaákvörðunar.
Samþykkt 27.maí 2006