Keppa í matreiðslu, bakstri og framreiðslu á Euroskills

„Þetta er alltaf svolítið stressandi, þetta er mikil spenna,“ segir Andrés Björgvinsson, einn þriggja fulltrúa Íslands sem keppa í matvæla- og veitingagreinum á Euroskills, Evrópumóti iðn- og verkgreina sem fram fer í Herning í Danmörku dagana 9. til 13. september. Andrés keppir í matreiðslu, Guðrún Erla Guðjónsdóttir í bakstri og Daníel Árni Sverrisson í framreiðslu. MATVÍS hitti þau Andrés og Guðrúnu Erlu á æfingu á Stórhöfða fyrir helgi. Þau gáfu sér tíma til að segja frá undirbúningnum.

Andrés varð hlutskarpastur þátttakenda á Íslandsmóti iðnsveina og -nema og var þannig boðið að verða fulltrúi Íslands á Euroskills. Hann er ekki ókunnur keppnum á erlendri grundu því Euroskills verður hans þriðja keppni.

Keppendur í matreiðslu fengu að vita hvað þeir ættu að elda í lok júní og þá hófust æfingar. Keppnisdagarnir verða þrír. Andrés mun matreiða tvo rétti fyrsta daginn, þrjá þann næsta og loks tvo rétti á lokadeginum. Hann hefur æft hvern dag fyrir sig og segist sennilega vera búinn að rúlla tíu sinnum í gegn um hvern dag.

Hann segir endurtekningarnar mikilvægar því þannig finni hann til dæmis út hvernig nýta megi tímann betur. „Núna í dag áttaði ég mig til dæmis á því að ég hef um það bil tíu mínútur til að henda í einn eða tvo hluti í viðbót við réttina mína. Ég var svolítið að standa kyrr í nokkrar mínútur og þann tíma gæti ég nýtt betur. Æfingarnar segja manni svona hluti.“

Andrés, sem er 22 ára og vinnur hjá Torfhúsinu Retreat, er fæddur og uppalinn í Mosfellsbæ. Hann segist hafa haft áhuga á að koma sér í matvælaiðnaðinn og skráð sig til náms í matvælaskólann við MK. Eftir að hafa prófað allar matvælagreinarnar hafi kokkurinn orðið fyrir valinu. „Mér finnst þetta ekki ennþá leiðinlegt svo ég ætla bara að halda áfram,“ segir hann glaður í bragði að lokum.

Bæði spennt og kvíðin

Guðrún Erla Guðjónsdóttir, bakari og conditor, keppir í bakstri, eins og fyrr segir. Hún segist hafa ákveðið að slá til eftir að Óskar Hafnfjörð Gunnarsson, formaður MATVÍS, kom að máli við hana. Guðrún Erla vann í sjö ár í Mosfellsbakarí en er ekki að vinna við bakstur eins og stendur. Hún segir þá staðreynd hafa hjálpað sér að taka ákvörðun um að taka þátt, enda væri strembið að fara í svona stífar bakstursæfingar eftir heilan dag í bakaríi.

Fyrst um sinn lá ekki fyrir hvert verkefnið yrði á Euroskills. Guðrún nýtti þann tíma til að æfa bakstur á hefðbundnu brauðmeti. En eftir að verkefnið varð ljóst hafi hún farið á fullt við æfingar. „Við eigum að gera krossant og vínarbrauð, sem er hefðbundið, en líka baguette, súrdeigsbrauð, rjómabollur, fléttubrauð og skrautstykki,“ segir Erla. Hún segir aðspurð að skrautstykkið verði ef til vill mesta áskorunin. „Í öðrum keppnum eru þetta liðakeppnir þar sem keppendur hjálpast að við stykkið en þarna þarf ég að gera allt; eitt gerdeigsbrauð með sýnilega hefun og svo sykursýrópsdeig,“ útskýrir hún.

Guðrún segist vera búin að taka a.m.k. þrjár tímaæfingar fyrir hvern keppnisdag. „Ég hef alltaf náð að skila öllu en þetta er auðvitað svolítið mikið,“ segir hún.

Aðspurð segist hún vera bæði spennt og kvíðin fyrir keppinni. „Ég er frekar stressuð en það skemmir auðvitað bara fyrir manni. Ég veit að ef ég fer afslöppuð inn í keppnina og geri mitt besta þá verð ég sátt. Ég get ekki gert betur en mitt besta,“ segir hún og hlær.