
Yfirlýsing frá MATVÍS (Matvæla- og veitingafélag Íslands)
Þann 29. október 2024 kvað Héraðsdómur Reykjavíkur upp dóm í máli sem eigandi veitingastaðarins Flame (Teppanyaki Iceland ehf.) höfðaði gegn MATVÍS.
Málið á rætur að rekja til þess að MATVÍS fékk upplýsingar um að starfsmenn veitingastaðarins Flame hefðu ekki fengið greiðslur sem þeir áttu rétt á samkvæmt kjarasamningum og lögum.
MATVÍS fór af þessum sökum í vinnustaðaheimsókn á veitingastaðinn Flame og í kjölfarið varð nokkur opinber umræða um kjör starfsfólks. Þrír starfsmenn hættu störfum á veitingastaðnum Flame eftir vinnustaðaheimsóknina.
Flame höfðaði dómsmálið og krafðist viðurkenningar á bótaskyldri háttsemi MATVÍS vegna vinnustaðaheimsóknarinnar og vegna fjölmiðlaumfjöllunar um veitingastaðinn Flame og veitingastaðinn Bambus, í eigu sömu einstaklinga.
Héraðsdómur ýmist vísaði frá eða hafnaði kröfum Flame og Bambus. Aftur á móti taldi dómurinn að framganga eftirlitsfulltrúa vinnustaðaeftirlits MATVÍS hefði ekki verið í fullu samræmi við verklagsreglur ASÍ um vinnustaðaeftirlit.
Þessari niðurstöðu dómsins mun MATVÍS áfrýja til Landsréttar.
Eins og áður segir var MATVÍS sýknað af öllum öðrum kröfum. Vegna fréttaflutnings af niðurstöðu dómsins vill MATVÍS koma eftirfarandi atriðum á framfæri:
- Í umræddri eftirlitsheimsókn var upplýst um brot gegn starfsfólki veitingastaðarins. Laun til starfsfólks höfðu verið vangreidd í nokkra mánuði þegar vinnustaðaheimsóknin fór fram. Í dóminum kemur fram að vangreidd laun til starfsmannanna þriggja hafi numið yfir 10 milljónum króna á tímabilinu.
- Þannig liggur fyrir að veitingastaðurinn Flame braut gegn starfsfólkinu og vanrækti skyldur samkvæmt lögum og kjarasamningum. Þessi brot upplýstust vegna eftirlitsheimsóknar MATVÍS.
- Fyrir tilstilli MATVÍS hefur Flame nú greitt þremur starfsmönnum háar fjárhæðir vegna launa sem það hafði verið hlunnfarið um. Héraðsdómur mun á næstunni taka til meðferðar launamál sem MATVÍS hefur höfðað gegn Flame. Þar er þess krafist að fyrirtækið geri að fullu upp við starfsfólk, í samræmi við kjarasamninga.
- Með dómnum frá 29. október sl. var fallist á kröfu um svokallaða „viðurkenningu á skaðabótaskyldu“. Skýrt er tekið fram í dómum að með þeirri niðurstöðu hafi engu verið slegið föstu um tjón. Í málinu liggur því ekkert fyrir um að vinnustaðaheimsóknin hafi valdið veitingastaðnum tjóni.
- Veitingastaðurinn byggir á því að eftirlitsheimsóknin hafi valdið því að þrír starfsmenn hættu störfum. Í dómnum er þessu hins vegar hafnað og tekið fram að ekki sé hægt að fullyrða neitt um það að umræddir starfsmenn hefðu haldið áfram störfum ef eftirlitsheimsóknin hefði ekki komið til. Í þessu sambandi þarf að hafa í huga að starfsfólk er í fullum rétti til þess að hætta störfum fyrirvaralaust ef vinnuveitandi hefur brotið gróflega gegn réttindum þess með þeim hætti sem fyrir liggur í þessu máli.
- MATVÍS fagnar því að héraðsdómur hafi hafnað tilraun tveggja veitingastaða til að þagga niður opinbera umræðu um alvarleg brot gegn réttindum starfsfólks. Með dómi héraðsdóms er staðfest að MATVÍS var í fullum rétti til að fjalla opinberlega um þessi brot og að umfjöllunin var réttmæt.
- Um fordæmisgefandi mál er að ræða þar sem reynir á heimildir stéttarfélaga til að aðstoða félagsmenn sína sem orðið hafa fyrir alvarlegum brotum á réttindum sínum af hálfu vinnuveitanda. Það er afstaða MATVÍS að túlka beri þessar heimildir með rúmum hætti til verndar réttindum starfsmanna. Atvik í þessu máli eru skýrt dæmi um mikilvægi vinnustaðaeftirlits og hlutverk stéttarfélaga við það. Þannig er ljóst að vinnustaðaheimsóknir gegndu lykilhlutverki við að upplýsa þau alvarlegu brot sem málið snýst um. MATVÍS mun halda áfram að berjast fyrir rétti stéttarfélaga til að upplýsa slík brot og krefjast leiðréttingar fyrir hönd félagsmanna sinna.
F.h. MATVÍS
Benóný Harðarson, forstöðumaður kjaradeildar Fagfélaganna.
Óskar Hafnfjörð Gunnarsson, formaður MATVÍS.
31. október 2024