Um­sögn Fag­fé­laganna um frum­varp til fjár­laga

Fagfélögin (RSÍ, VM, Byggiðn og MATVÍS) hafa tekið til umsagnar frumvarp til fjárlaga 2025. Í þeirri umsögn, sem send hefur verið nefndarsviði Alþingis, er fjallað um fimm atriði í fjárlagafrumvarpinu.

  1. Fjárframlög til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða
  2. Auðlindagjöld og ríkissjóður
  3. Séreignaleiðin á bak og burt
  4. Endurskoðun skattkerfis
  5. Framlög til framhaldsskóla og iðnmenntunar

Undir umsögnina skrifa Jón Bjarni Jónsson, formaður Bygginðar, Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður RSÍ, Óskar Hafnfjörð Gunnarsson, formaður MATVÍS og Guðmundur Helgi Þórarinsson, formaður VM.

Undir lok umsagnarinnar er þess óskað að formönnum Fagfélaganna verði gefinn kostur á að koma á fund fjárlaganefndar til að fara yfir þær fyrirhuguðu breytingar sem boðaðar eru í frumvarpinu.

Umsögn Fagfélaganna um frumvarp til fjárlaga

Fjárframlög til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða

Fagfélögin taka heilshugar undir umsögn Gildis-lífeyrissjóðs um fjárframlög til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóða. Í greinargerð með frumvarpinu er því ranglega haldið fram að þörf lífeyrissjóðanna til örorkubyrði hafi minnkað, samhliða batnandi fjárhagsstöðu sjóðanna. Hið rétta er að ellilífeyrisbyrði lífeyrissjóða hefur aukist, sem á móti dregur úr vægi hlutfalls örorku af heildarskuldbindingum sjóðanna. Af því ber ekki að draga þá ályktun að umfang örorkuskuldbindinga hafi lækkað heldur hafa heildarskuldbindingar lífeyrissjóðanna vaxið. Samkvæmt útreikningum í umsögn Gildis skerðast ellilífeyrisréttindi sjóðfélaga, verði framlagið lagt niður, um 5,7%. Heildaráhrif þessa eru vanmetin í frumvarpi til fjárlaga, eins og gildir um önnur skyld verkefni stjórnvalda. Það á sér í lagi við um þá ákvörðun að skerða framlag ríkissjóðs til VIRK starfsendurhæfingasjóðs um tæp 50%, eins og vakin er athygli á í sameiginlegri umsögn Landssamtaka lífeyrissjóða, ASÍ og annarra heildarsamtaka launafólks auk samtaka atvinnurekenda.

Auðlindagjöld og ríkissjóður

Áætlaðar tekjur ríkissjóðs, vegna sérstakrar álagningar á sjávarútveg, nema 14,3 milljörðum króna. Af því er verðmætagjald sjókvíaeldis 2,3 milljarðar. Eftir standa 12 milljarðar, sem eigendur íslenskra fiskiskipa greiða í sameiginlega sjóði, vegna veiða á nytjastofnum sjávar. Til samanburðar eru framlög ríkissjóðs til Landhelgisgæslu og Hafrannsóknastofnunar alls 11,8 milljarðar. Því má segja að 98% veiðigjaldsins séu þjónustugjöld, en 2% eiginlegt gjald fyrir nýtingu sameiginlegrar auðlindar þjóðarinnar. Gjaldið eykst þó um 2 milljarða milli ára, en betur má ef duga skal. Fagfélögin hvetja matvælaráðherra til að hækka raunverulegt auðlindagjald.

Séreignarleiðin á bak og burt

Fagfélögin hvetja stjórnvöld til að framlengja almennt úrræði ráðstöfunar séreignarsparnaðar inn á húsnæðislán, sem að öðru óbreyttu rennur út í lok árs 2024. Úrræðið hefur stuðlað að aukinni eiginfjármyndun heimila undanfarin ár, sem er í raun besta vörn heimilanna gegn verðbólgu til framtíðar. Að svipta þau þessu tóli, þegar ekki sér fyrir endann á glímunni við verðbólgudrauginn, er ámælisvert. Sú ráðstöfun er ekki í anda aðgerða stjórnvalda til stuðnings þeim kjarasamningum sem undirritaðir voru í upphafi árs. Ef markmiðið er að halda aftur af verðhækkunum á fasteignamarkaði væri nær að líta til aukinna álaga á aðra eða þriðju eign.

Endurskoðun skattkerfis

Í frumvarpinu er komið inn á fyrirhugaða vinnu til að varna mismunun í skattlagningu. Sú vinna lýtur helst að þeim framteljendum sem hafa nær eingöngu fjármagnstekjur sér til framfærslu. Í þeim tilfellum verði litið svo á að tiltekin fjárhæð eða hlutfall teknanna verði talið fram sem laun í skattframtali. Af því leiðir að útsvarsstofn sveitarfélaga stækkar, auk þess sem framlög fjármagnseigenda til samneyslunnar færast nær eðlilegu horfi. Fagfélögin fagna þessum fyrirætlunum stjórnvalda.

Framlög til framhaldsskóla og iðnmenntunar

Það er engum blöðum um að fletta að mikilvægi iðnmenntunar hefur sjaldan verið meira á lýðveldistímanum. Samkvæmt títtnefndu frumvarpi aukast framlög til framhaldsskólastigsins um rúmlega 3,4 milljarða frá fjárlögum 2024 til 2025, sem er vel. Þó væri eðlilegt að raungildi framlaga héldist út gildistíma fjárlaga; þ.e. til 2027. Við þetta má bæta að framlög til tækja og búnaðar á framhaldsskólastigi dragast almennt saman yfir gildistíma áætlunarinnar. Ætla má að sú ráðstöfun komi verst niður á iðnnemum.