Þrjú námskeið eru þegar á dagskrá haustannar í matvæla- og veitingagreinum hjá IÐUNNI fræðslusetri. Þann 30. ágúst fer fram spennandi námskeið í sveppum og sveppatínslu. Athugið að aðeins 15 pláss eru laus og færri hafa komist að en vilja, síðustu ár. Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor við LBHÍ, kennir námskeiðið.
Námskeiðið byrjar seinnipart dags föstudaginn 30. ágúst með fyrirlestri og sýningu á helstu ætisveppategundum sem við gætum átt von á að finna í sveppagöngu. Þar er fólki kennt að þekkja um 20 tegundir öruggra ætisveppa og fjallað er um útbreiðslu þeirra, búsvæði og önnur einkenni.Helstu eitruðu sveppategundum sem hægt er að rugla saman við þessa ætisveppi verða einnig gerð skil.
Á laugardeginum 31. ágúst verður síðan farið í ólík skóglendi með kennara og aðstoðarfólki þar sem veitt er leiðsögn við greiningar á þeim sveppategundum sem finnast, á hvaða þroskastigi þær eru nýtanlegar og hvernig er best að ganga frá þeim.
Að því loknu er farið í veitingaeldhús Matvís á Stórhöfða þar sem sveppirnir sem þátttakendur hafa tínt eru hreinsaðir undir handleiðslu og þeim kennt hvernig er best að haga geymslu sveppanna svo að þeir njóti sín sem best í matargerð. Að lokum eru nokkrar valdar sveppategundir steiktar í smjöri og olíu og fá allir að prófa að bragða á þeim með góðu brauði.
Boðið er upp á léttar kaffiveitingar á föstudeginum og þegar komið er í hús eftir skógarferðina á laugardeginum. Mælt er með því að þátttakendur taki með sér nesti fyrir hádegismat á laugardeginum.
Þátttakendur eru minntir á að klæða sig eftir veðri og allir þurfa að hafa með sérstakan sveppahníf eða vasahníf til að hreinsa sveppina og körfu eða kassa undir sveppina svo það loft vel um þá (alls ekki plastpoka).
Staður: Hjá Matvís Stórhöfða 31 og í nærliggjandi skóglendi
Umsagnir fyrri nemenda
„Frábært að fá persónulega kennslu í litlum hóp áhugasamra nemenda.”
„Tenging námskeiðsins við eldhúsið, þ.e. að kenna okkur að steikja og almennt nýta sveppina var alveg frábær.
Ekki hefði mér dottið í hug að mismunandi sveppir væru svona mismunandi á bragðið!.”
„Virkilega fræðandi og skemmtilegt námskeið sem ég mæli 100% með.”