Samstaða og kraftur á 46. þingi ASÍ

Þing ASÍ stóð yfir 16.-18. október 2024. Yfirskrift þingsins var „Sterk hreyfing – sterkt samfélag“. Á þinginu var Finnbjörn Hermannsson forseti endurkjörinn en hann var einn í framboði. Hann hlaut standandi lófaklapp þegar kjörið var yfirstaðið.

Þrír varaforsetar voru kjörnir á þinginu. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, var sjálfkjörinn 1. varaforseti. Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, formaður AFLs Starfsgreinafélags, var sjálfkjörin 2. varaforseti. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, var sjálfkjörin 3. varaforseti.

Á þinginu var rætt um orkumál, samkeppnismál og heilbrigðismál, svo eitthvað sé nefnt.

Almenn ánægja ríkir með vinnubrögð á og málefnastarf á þinginu en fjölmargar ályktanir voru samþykktar eða þeim vísað til frekari vinnslu hjá miðstjórn. Mikill kraftur var í málefnahópum, sem voru þrír talsins á þinginu. Hóparnir hétu: „Auðlindir í þágu þjóðar“, „Samkeppni í þágu samfélags“ og „Þjónusta í þágu almennings“. Í öllum hópum fóru fram hreinskiptar umræður um brýn samfélagsleg málefni.

Í pallborði Auðlinda í þágu þjóðar sátu Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis- orku og loftlagsráðherra, Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, Bjarni Bjarnason, fyrrverandi forstjóri Orkuveitunnar og Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri og nú frambjóðandi til Alþingis.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra var í pallborði málefnahópsins Samkeppni í þágu samfélags. Með honum voru Alma Möller landlæknir og Jón Magnús Kristjánsson bráðalæknir en þau hafa síðan bæði tilkynnt um framboð til Alþingis. Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítalans sat einnig í pallborði.

Ályktanir samþykktar

Þrátt fyrir að skoðanir væru skiptar í málefnahópunum þremur komu fulltrúarnir sér saman um mikilvægar ályktanir.

Þingið samþykkti fimm ályktanir. Ein var um stofnun framtíðarnefndar ASÍ en nefndin skal meðal annars fjalla um áskoranir og tækifæri vinnandi fólks í framtíðinni að því er snertir tæknibreytingar, lýðfræðilegar breytingar, sjálfvirknivæðingu og nýtingu gervigreindar.

Önnur ályktun var samþykkt um aðgerðir gegn einbeittri og síaukinni brotastarfsemi á vinnumarkaði.

Þingið ályktaði líka um húsnæðismál en þar segir að brýnt sé að stjórnvöld, bæði ríki og sveitarfélög, standi við gefin loforð í húsnæðismálum og hefji hér stórfellda og tafarlausa uppbyggingu, svo eitthvað sé nefnt.

Ályktun var einnig samþykkt um ráðstöfun séreignasparnaðar til greiðslu íbúðarhúsnæðis.

Loks samþykkti þingið ályktun um vaxtaokur og verðtryggingu.

Mynd/ASÍ