Pistill formanns: Samvinna brýtur múra

Kæru félagar.

Nú líður senn að lokum kjaralotunnar sem segja má að hafi hafist haustið 2022. Þá leiddu kjaraviðræður til þess að gerðir voru eins árs samningar á almennum markaði, með góðri launahækkun. Við undirritun þeirra samninga hófst þegar í stað undirbúningsvinna fyrir þá samninga sem skrifað var undir í mars síðastliðnum. Þá tókst að ná samkomulagi um langtímasamninga með því markmiði að ná niður vöxtum og verðbólgu, sem leikið hafa landsmenn grátt.

Allt þetta ár hafa Fagfélögin setið við samningaborðið með hinum ýmsu hópum en samningarnir hafa í flestum tilfellum kveðið á um sömu hlutfallshækkanir og gerðar voru í upphaflegum samningi; 3,25% afturvirk hækkun frá 1. febrúar síðastliðnum en svo árleg 3,5% almenn hækkun launa en taxtar hækka um 5,1% um áramót. Dregið hefur hratt úr verðbólgu eftir því sem á árið hefur liðið en vextir hefðu mátt lækka hraðar. Vextir eru enn heimilum landsmanna þungur baggi. Mikilvægt er að ný ríkisstjórn haldi áfram[BH1]  að vinna að því að ná niður vöxtum og verðbólgu.

Öflug samvinna

Fjölmennur hópur trúnaðarmanna sótti ráðstefnu Fagfélaganna í nóvember.

Fagfélögin hafa unnið þétt saman undanfarin ár, ekki síst þegar kemur að gerð kjarasamninga. Samvinnan hófst 2019 þegar VR og SGS lögðu af stað í lífskjarasamninginn með krónutöluhækkanir að leiðarljósi. Slíkir samningar henta iðnaðarfólki ekki vel. Þessi samvinna hefur skilað okkur mörgum dýrmætum sigrum. Ein merkasta varðan á þeirri leið er þegar við náðum í vor fram hækkun á sveinatöxtum MATVÍS til jafns við aðra taxa iðn- og tæknifólks

Öðrum stórum áfanga var náð í lok nóvember þegar samstaðan leiddi til þess að MATVÍS skrifaði í fyrsta sinn undir samning við Reykjavíkurborg. Að þessu hafði lengi verið unnið en hjá mötuneytum borgarinnar starfar margt fólk í okkar greinum. Þessi hópur á þess nú kost að ganga til liðs við sitt fagfélag. Samvinnan brýtur múra.

Þegar þetta er skrifað á MATVÍS aðeins eftir að skrifa undir nýjan kjarasamning við Landhelgisgæsluna en hann bíður nýs árs.

Krefjandi verkefni

Eins og fjölmiðlar hafa rækilega skrásett hafa umfangsmikil og þung mál komið upp á vinnumarkaði, þar sem grunur er um vinnumansal og önnur alvarleg brot. Vinnustaðaeftirlit Fagfélaganna og Eflingar hefur í mörgum þessara mála leikið mikilvægt hlutverk en það undirstrikar hve mikilvægt er að fylgjast náið með því að farið sé að kjarasamningum og þeim lögum og reglum sem gilda í landinu. Að baki þessum málum liggur mikil vinna og öflugt samstarf við ýmsar stofnanir samfélagsins, svo sem lögreglu og Vinnueftirlit.

Fyrsta starfsári vinnustaðaeftirlits Fagfélaganna og Eflingar lauk í september en alls voru teknar niður upplýsingar um 1.200 manns hjá 716 fyrirtækjum á árinu. Umtalsverður hluti þeirra starfa á veitingamarkaði eða í tengdum greinum.

Í haust tóku Fagfélögin svo virkan þátt í mikilvægri ráðstefnu í Hörpu um vinnumansal, en Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins stóðu að ráðstefnunni.

Fjölmenn ráðstefna

Formenn Fagfélaganna VM, RSÍ og MATVÍS.

Nú í nóvember héldu Fagfélögin sameiginlega ráðstefnu fyrir trúnaðarmenn í Hvergerði. Um 120 manns sóttu ráðstefnuna en þar gafst trúnaðarmönnum og stjórnarfólki í félögunum færi á að kynnast og bera saman bækur sínar. Á ráðstefnunni fór fram öflug fræðsla, meðal annars um starfsemi Fagfélaganna.

Það er afar ánægjulegt að geta, í samvinnu við hin félögin, eflt trúnaðarmannakerfið og aukið fræðslu til þeirra sem sinna þessu mikilvæga hlutverki. Trúnaðarmenn eru tengiliðir okkar við vinnumarkaðinn og veita oft á tíðum fyrstu bjargir, þegar eitthvað bjátar á.

Aðrar áskoranir

Þrátt fyrir að kjarasamningar séu að baki eru verkefnin ærin og fjölbreytt. Þau snúast meðal annars um að verja það sem hefur áunnist við samningaborðið. Stofnun gervistéttarfélagsins Virðingar og kjarasamningur félagsins við SVEIT, samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði, er aðför að kjarabaráttu og réttindum starfsfólks í veitingageiranum. Eins og ASÍ hefur bent á eru a.m.k. tveir stjórnarmenn í Virðingu sem koma beint að rekstri veitingastaða sem starfa innan SVEIT. Atvinnurekendur eru þannig að reyna að semja við sjálfa sig og grafa undan þeim árangri sem við höfum náð. Þetta undirstrikar mikilvægi þess að standa vörð um þau kjör og réttindi sem náðst hafa. Vinnunni er aldrei lokið.

Kjaramál streyma reglulega inn á okkar borð. Núna rétt fyrir jól leiddum við til lykta mikilvægt mál þar sem vegið var að lögum um uppsagnarfrest. MATVÍS sótti þar á atvinnurekanda, fyrir hönd matreiðslumanns, en málið snerist um greiðslu á lögbundnum uppsagnarfresti. MATVÍS var dæmdur fullnaðarsigur í málinu en atvinnurekandanum bera að greiða 1,4 milljónir í vangoldin laun.

Slagkrafturinn eykst

Mirabela Blaga og Adam Kári Helgason, fulltrúar Vinnustaðaeftirlits Fagfélaganna og Eflingar.

Í upphafi ársins blésu Fagfélögin til auglýsingaherferðar undir slagorðinu Fagfélögin – ekkert fúsk! Sú herferð ásamt fréttaflutningi í tengslum við kjaraviðræður og síðar fréttum vegna vinnustaðaeftirlitsins, kom Fagfélögunum rækilega á koppinn í umræðunni á árinu sem er að líða. Heitið hefur fest sig í sessi og er orðin þekkt stærð þegar umfjöllunum fjölmiðla um stéttarfélög og málefni þeirra eru annars vegar.

Samvinna við kjarasamningsgerð, öflugt vinnustaðaeftirlit og vegleg trúnaðarmannaráðstefna eru aðeins nokkur dæmi um þann aukna slagkraft sem Fagfélögin hafa náð fram með samvinnu sinni. Þessu til viðbótar má nefna sameiginlegt kaffisamsæti fyrir eldra félagsfólk, sem Fagfélögin standa að í hverjum mánuði yfir vetrartímann.

Fagfélögin hafa líka í krafti samvinnunnar eflt þjónustu sína við landsbyggðina og hafa haft viðveru í öllum landsfjórðungum í haust. Þessar heimsóknir hafa nýst félagsfólki okkar utan suðvesturhornsins afar vel. Ég geri ráð fyrir að áframhald verði á þessu.

Einnig má nefna að Fagfélögin hafa staðið fyrir þremur námskeiðum um lífeyrismál, þar sem færri komust að en vildu. Fleiri slík námskeið verða haldin.

Ný kerfi taka við

Frá lífeyrisnámskeiði Fagfélaganna – með Birni Berg.

Ég má til með að nefna að núna um áramótin munu Fagfélögin taka við innheimtu félagsgjalda en til þessa hafa lífeyrissjóðirnir annast innheimtuna. Jafnframt verða ný þjónustukerfi tekin upp en umsóknir um styrki úr sjóðum félagsins munu héðan í frá fara fram í nýju kerfi. Leiga orlofshúsa verður jafnframt í nýju kerfi á nýju ári. Við vonum að innleiðingin gangi hnökralaust en biðjum félagsfólk um að sýna þolinmæði, ef á þarf að halda, fyrst um sinn. Leiðbeiningar um notkun á þessum kerfum verða kynntar hér á heimsíðunni þegar þar að kemur.

Eins og hér að ofan er rakið hefur árið hvoru tveggja verið viðburðarríkt og krefjandi. Kjarasamningar eru að baki og mikilvægum áföngum hefur verið náð. Ljóst er, sem endranær, að viðfangsefnin eru næg.

Fyrir hönd félagsins óska ég félagsfólki og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

Óskar Hafnfjörð Gunnarsson, formaður