Landslið kjötiðnaðarmanna á leið á HM í París

„Við fáum hálft naut, hálft svín, heilt lamb og fimm kjúklinga og höfum þrjár klukkustundir og þrjátíu mínútur til að vinna kjötið og stilla upp fullkomnu kjötborði,“ segir kjötiðnaðarmaðurinn Jón Gísli Jónsson, fyrirliði landsliðs kjötiðnaðarmanna.

Hann er, ásamt fimm öðrum liðsfélögum, á leið til Parísar að keppa á heimsmeistaramótinu í kjötiðnaði. Liðið þarf innan þessa tímaramma að úrbeina kjötið, útbúa allar fyllingar, binda og ganga frá í kjötborð. Að auki þurfa keppendurnir að hafa lokið frágangi og þrifum alls vinnusvæðisins áður en tíminn rennur út.

Jón Gísli viðurkennir að þetta verði verðugt verkefni. „Já, þetta verður krefjandi en jafnframt mjög gaman,“ segir hann.

Hópurinn kom saman á Minni framtíð í Laugardalshöll, vann úr því hráefni sem hafði safnast upp á æfingum undanfarna daga og seldi gestum og gangandi. Kjötið seldist raunar upp.

Undirbúningur fyrir þátttöku liðsins á heimsmeistaramótinu hefur staðið yfir í rúmt ár. En hvernig er best að æfa fyrir svona?

„Í rauninni byrjum við bara á því að ákveða hvað við viljum gera. Svo skiptum við æfingunum niður eftir próteini. Byrjum á að taka svínið, svo lambið, þá nautið og loks kjúklinginn. Við búum bara til æfingaplan og fylgjum því. Þegar við erum orðnir ánægðir með útkomuna tökum við heilar æfingar, þar sem við förum í gegnum allt ferlið. Við höfum verið að gera það núna eftir áramótin; við rúllum öllu í gegn með fyllingum, marineringum og þess háttar,“ segir Jón.

Fjölmargir styrktaraðilar leggja verkefninu lið og leggja hópnum meðal annars til kjöt til æfinga.

Fjórtán lið taka þátt á heimsmeistaramótinu að þessu sinni en liðakeppnin fer fram 31. mars. Keppnin fer fram á svæðinu þar sem Ólympíuleikarnir í París voru haldnir í fyrra.

Vinna við undirbúning og þátttöku fer öll fram í sjálfboðavinnu. Jón Gísli, sem býr að reynslu af þátttöku í svona keppni frá Sacramento 2022, staðfestir að þetta sé mikil vinna. Hann segir hins vegar að til baka fái þeir mikla reynslu auk þess sem það sé góð tilfinning að gera eitthvað fyrir kjötiðnina á Íslandi; að gera íslenska kjötið sýnilegt, eins og hann orðar það. „Svo er bara gaman að vera með strákunum,“ segir hann að lokum.

Jón Gísli er til hægri á meðfylgjandi mynd. Á myndinni eru einnig landsliðsmennirnir Davíð Clausen Pétursson (til vinstri) og Dominik Przybyla (annar frá vinstri), auk Jóhannesar Geirs Númasonar, stjórnarmanns í landsliði kjötinðarmanna.

Landsliðið í kjötiðnaði er þannig skipað:

  • Jón Gísli Jónsson – Kjötkompaní og fyrirliði.
  • Dominik Przybyla – Esja gæðafæði.
  • Guðmundur Bílddal – Esja gæðafæði.
  • Davíð Clausen Pétursson – Eco Garden.
  • Hermann S. Björgvinsson – Ali matvörur
  • Benedikt Þorvaldur Guðgeirsson Hjarðar – BG kjötafurðir