
Mín framtíð, framhaldsskólakynning og Íslandsmót iðn- og verkgreina fer fram Laugardalshöll 13.-15. mars. Keppt verður í 19 iðngreinum á Íslandsmótinu að þessu sinni.
Keppnisgreinarnar eru: Bifvélavirkjun, bifreiðasmíði, bílamálun, forritun, grafísk miðlun, hársnyrtiiðn, húsasmíði, málmsuða, pípulagnir, rafeindavirkjun, rafvirkjun, skrúðgarðyrkja, snyrtifræði, vefþróun, veggfóðrun og dúkalögn, gull- og silfursmíði, fataiðn, málaraiðn og múriðn.
Sigur á Íslandsmótinu getur gefið möguleika á að keppa í Evrópu á Euroskills en næsta keppni fer fram í Herning í Danmörku í september 2025.
Gert er ráð fyrir að á bilinu 9 til 10 þúsund grunnskólanemendur sæki viðburðinn en öllum nemendum 9. og 10. bekkjar er boðið.
25 skólar munu kynna námsframboð sitt þessa daga. Mín framtíð er haldinn í samvinnu við Mennta- og barnamálaráðuneytið, sveitarfélög og fagfélög iðn- og starfsgreina.
Á fjölskyldudegi, lokadegi mótsins, verður skemmtileg dagskrá í boði fyrir alla fjölskylduna. Þar er lögð áhersla á að kynna mikilvægi þess að hver og einn eigi kost á því að velja sér nám við hæfi. Sérstök áhersla á Mín framtíð 2025 er á mikilvægi iðn- og verkgreina og svokallaðra Steam-greina; vísindi, tækni, verkfræði, listsköpun og stærðfræði.
Meðfylgjandi mynd var tekin síðast þegar Íslandsmótið var haldið.