IÐAN fræðslusetur verður með bás og þar með þátttakandi á viðburðinum Stóreldhúsið 2024, sem fram fer í Laugardalshöll 31. október til 1. nóvember. Stóreldhúsið er fagsýning fyrir stóreldhúsageirann. Sýningin hefur verið haldin annað hvert ár síðan 2005. Hefur hún vaxið ár frá ári sem sýnir hversu vel hún nær til markhópanna. Helstu markhópar sýningarinnar eru: skólarnir, vinnustaðir, stofnanir, spítalar, hótel, veitingageirinn, mötuneyti, skyndibitastaðir, bakarí, framleiðslueldhús og matvælaiðnaður.
IÐAN mun á sýningunni kynna starfsemi sína. Í tilkynningu frá fræðslusetrinu er starfsemi IÐUNNAR svona lýst:
Iðan í hnotskurn
Iðan er fræðslusetur í iðnaði og sinnir meðal annars símenntun starfsmanna í matvæla- og veitingagreinum. Námsframboðið er fjölbreytt og í stöðugri þróun enda er það þýðingarmikið hlutverk að sjá fyrirtækjum og einstaklingum fyrir nýrri þekkingu og færni eftir
því sem þörf krefur.
Markviss ráðgjöf og stuðningur til fyrirtækja og einstaklinga.
Náms- og starfsráðgjafar okkar sérhæfa sig í að aðstoða einstaklinga við raunfærnimat, náms- og starfsval og framkvæmd áhugasviðskannana.
Margvísleg þjónusta við iðnfyrirtæki og starfsmenn þeirra
Iðan sinnir fjölbreyttum verkefnum eins og mati og viðurkenningu á erlendu námi og greiningu á fræðsluþörfum fyrirtækja. Einnig sér Iðan um framkvæmd sveinsprófa í fjölmörgum greinum.
Þróun og nýsköpun
Iðan fræðslusetur er í samvinnu við fyrirtæki og stofnanir um þróun og nýsköpun innan iðnaðarins, til að mynda þegar kemur að námsefnis, nýjum kennsluaðferðum og tækifærum til fræðslu- og þjálfunar erlendis. Rík áhersla hefur verið lögð á erlend samvinnuverkefni með það að markmiði að styðja við fagfólk og iðnnema til að sækja sér þekkingu og deila reynslu sinni í löggiltum iðngreinum. Í flestum tilfellum eru námsferðir og samvinnuverkefni styrkt af Erasmus+, EEA – Grants og Norrænu ráðherranefndinni.
Fræðslustyrkir til fyrirtækja og einstaklinga.
Fyrirtæki sem greiða endurmenntunargjöld til Iðunnar og eru í skilum eiga rétt á að sækja um fræðslustyrki vegna náms og fræðslu starfsmanna.