Fagfélögin virkir þátttakendur á ráðstefnu um vinnumansal

Fjórir fulltrúar Fagfélaganna tóku þátt í ráðstefnu um vinnumansal sem haldin var í Hörpu 26. september síðastliðinn. Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins stóðu sameiginlega fyrir ráðstefnunni. Undanfarin misseri hafa komið upp á yfirborðið nokkur mál á íslenskum vinnumarkaði sem sýna að vinnumansal þrífst í íslensku samfélagi.

  • Adam Kári Helgason eftirlitsfulltrúi í vinnustaðaeftirliti Fagfélaganna og Eflingar var í pallborði málstofu sem haldin var undir yfirskriftinni Eftirlit á vinnumarkaði – framkvæmd og reynsla í nútíð og framtíð.
  • Benóný Harðarson, forstöðumaður kjaradeildar Fagfélaganna, stýrði þeirri málstofu.
  • Mirabela Blaga, eftirlitsfulltrúi í vinnustaðaeftirliti Fagfélaganna og Eflingar, stýrði málstofu sem bar yfirskriftina Rannsókn og saksókn vinnumansalsmála.
  • Andri Reyr Haraldsson, formaður Félags íslenskra rafvirkja, sem tilheyrir RSÍ, var í pallborði sem fram fór undir yfirskriftinni Ábyrgð fyrirtækja í virðiskeðjunni.

Adam Kári segir að málstofan um eftirlit á vinnumarkaði hafi verið afar vel heppnað. „Við vorum þarna að ræða okkar sjónarhorn á vinnustaðaeftirlitið; hvað er gott og hvað betur má fara,“ segir Adam Kári en í pallborði voru einnig fulltrúi frá Vinnueftirliti ríkisins, forstöðumaður vinnumarkaðssviðs SA og verkefnisstjóri atvinnuréttinda hjá Vinnumálastofnun.

Adam segir að almennt hafi sýn málstofunnar sem hann tók þátt í verið sú að aukið fjármagn vantaði frá ríkinu í málaflokkinn. Hann segir að Samtök atvinnulífsins hafi á ráðstefnunni gagnrýnt stéttarfélögin fyrir að endurvekja ekki gamalt samkomulag um gæðavottun starfsmannaleiga.

„Ég benti þeim á móti á að það væri synd að SA væri ekki að sinna neinu eftirliti, eins og samtökin gerðu fyrst eftir að lög um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum voru sett, árið 2010. Þeir voru með starfsmenn á sínum snærum fyrst á eftir en hættu því síðan. Þeim fannst óþægilegt að hafa eftirlit með fyrirtækjum sem voru aðilar að samtökunum,“ segir Adam og bætir við að ef SA væri reiðubúið að setja fjármagn í eftirlitið þá gæti vinnustaðaeftirlit Fagfélaganna og Eflingar ráðið fólk og annast framkvæmdina.

Nokkur myndbönd af vettvangi vinnustaðaeftirlits voru sýnd á ráðstefnunni, meðal annars frá Adam. Adam segir að hann hafi meðal annars rekið hvernig þau beri sig að við eftirlitið. Stundum ræði annað þeirra við yfirmanninn á staðnum til að hinum eftirlitsfulltrúanum gefist færi á að ræða óhindrað við undirmenn, svo dæmi sé tekið. „Okkur finnst mikilvægt að stjórnvöld sjái hvernig eftirlitinu er háttað. Þess vegna buðum við Guðmundi Inga Guðbrandssyni félags- og vinnumarkaðsráðherra, sem sat í salnum, að koma með í eftirlitsferð. Það boð stendur enn,“ segir Adam.

Adam segir að pallborðið hafi verið afar vel heppnað, eins og áður segir. Um 100 manns hafi setið í salnum; fulltrúar frá félagsþjónustu, starfsmannastjórar, aðrir eftirlitsaðilar, fulltrúar SA og annað fólk sem lætur sig þessi mál varða.

Skortir fjármagn og sérhæfingu

Mjög margir fylgdust með málþinginu sem Mirabela stýrði um rannsókn og saksókn vinnumansalsmála. Fulltrúar frá ákærusviði, Mannréttindaskrifstofu Íslands, lagadeild HR og lögreglu héldu erindi auk þess sem pallborðsumræður fóru fram. Mirabela segir að stóra vandamálið við málaflokkinn sé að málin fari ekki alla leið – þau fari ekki í ákæruferli. „Það eru ekki til úrræði til að tryggja öryggi og vernd ætlaðra brotaþola. Það hefur í för með sér að þú ert ekki með vitni,“ útskýrir hún. Aðeins hafi fallið dómur í einu mansalsmáli á öllum dómstigum frá 2009 – og það hafi ekki verið vinnumansalsmál.

Allir eru að sögn Mirabelu sammála um að fjármagn skortir til að taka þessi mál lengra en einnig þurfi aukna þjálfun og þekkingu allra sem að málaflokknum koma. Auka þurfi sérhæfingu þeirra sem fari með þessi mál og mikilvægt sé að aðgreina málin í mismunandi flokka. Vinnumansalsmálin geti verið mjög ólík og reynt á ólíkar stofnanir samfélagsins. Nálgast þurfi vinnumansalsmál og vændismál með ólíkum hætti.

Lögin eru skýr

Mirabela segir að til staðar séu skýr lagaákvæði í almennum hegningarlögum sem taki á vinnumansalsámálum, lög frá 2021. Í þeim sé kveðið á um hvaða atriði þurfi að vera til staðar svo hægt sé að sakfella fyrir verknaðinn. Þar er líka kveðið á um þær aðferðir sem notaðar séu, (t.d. ólögmæt nauðung, frelsissvipting eða blekkingar) „Svo erum við líka með lög um atvinnuréttindi útlendinga þar sem fram kemur að það varði sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum ef maður, af ásetningi eða stórfelldu gáleysi hefur milligöngu um vinnu eða húsnæði fyrir útlending eða gefur út eða miðlar yfirlýsingum, umsögnum eða skjölum til notkunar í máli samkvæmt lögunum ef hann með því notfærir sér ótilhlýðilega aðstæður útlendingsins.“

Hún segir að vandamálið séu ekki lögin, heldur sú staðreynd að þeim sé ekki beitt. „Og það veit eiginlega enginn hvers vegna það er ekki gert þegar við höfum öll verkfærin til þess.“ Hún segir að þrátt fyrir það hafi þessi stóru mál sem komið hafi upp á Íslandi undanfarin misseri leitt til aukins samstarfs og trausts á milli stofnana og aðila sem að þessum málaflokki koma. „Það er orðið betra samstarf á milli stéttarfélaga og stofnana á borð við lögreglu og landamæraeftirlits. En það þarf meiri vilja og stuðning frá stjórnvöldum og nýja aðgerðaráætlun gegn mansali og annars konar hagnýtingu. Sú síðasta er frá 2019. Við höfum í þrígang fengið athugasemdir frá GRETA, (eftirlitsnefnd Evrópuráðsins með samningi um aðgerðir gegn mansali) um að mörgu þurfi hér að breyta en stjórnvöld bregðast ekki við. Það er það sem við þurfum að breyta. Það eru allir sammála um að það vantar eftirfylgni, markvisst eftirlit á öllum vígstöðvum, aukna ábyrgð vinnuveitenda, samstarf og samvinnu þvert á stofnanir,“ segir Mirabela.

Aukinn áhugi á málefnum vinnumansals

Sú umræða sem skapast hefur í tengslum við fjölmiðlaumfjöllun um vinnumansal og svo ráðstefnuna í Hörpu hefur vakið mikla athygli á málaflokknum. Í kjölfar ráðstefnunnar hafði Félag heilbrigðis- og umhverfisfulltrúa, FHU, samband og óskaði eftir fundi með vinnustaðaeftirliti Fagfélaganna og Eflingar. Jafnframt hafa félagsþjónustan í Kópavogi sem og Félag mannauðsstjóra, óskað eftir fundi til að ræða þessi mál. Adam og Mirabela munu fyrir hönd vinnustaðaeftirlits Fagfélaganna og Eflingar funda með þessum aðilum fljótlega.

Myndir frá ráðstefnunni eru frá ASÍ