
Íslenska landsliðið í kjötiðnaði tók nýverið þátt í Heimsmeistaramótinu í kjötiðnaði sem fram fór í París. Þar kepptu lið hvaðanæva að úr heiminum í kjötskurði, framsetningu og vöruþróun. Ísland flutti með sér íslenskt hráefni og um 200 kíló af búnaði.
Frakkland sigraði keppnina, Þýskaland lenti í öðru sæti og Ástralía í því þriðja. Þótt íslenska liðið hafi ekki náð á verðlaunapall, vakti frammistaða þess mikla athygli dómara og áhorfenda, að því er fram kemur í frétt á vef Veitingageirans.
Einstaklingsverðlaun voru veitt fyrir nýsköpun og gæði kjötvara, þar sem meðal annars Bandaríkin og Þýskaland hlutu viðurkenningar. Í úrvalsliði mótsins, All Star Team, voru sex kjötiðnaðarmenn valdir – þar af tveir frá Þýskalandi og tveir frá Frakklandi.
Íslenska liðið samanstóð af sex fagmönnum úr kjötiðnaðargeiranum, undir forystu Jóns Gísla Jónssonar. Þeir lögðu áherslu á að vekja athygli á kjötiðn sem faggrein, sérstaklega í ljósi þess að námið á Íslandi er stundum lítt sýnilegt.
Landsliðið var þannig skipað:
- Jón Gísli Jónsson – Kjötkompaní og fyrirliði.
- Dominik Przybyla – Esja gæðafæði.
- Guðmundur Bílddal – Esja gæðafæði.
- Davíð Clausen Pétursson – Eco Garden.
- Hermann S. Björgvinsson – Ali matvörur
- Benedikt Þorvaldur Guðgeirsson Hjarðar – BG kjötafurðir
Í tengslum við heimsmeistaramótið heimsótti íslenska liðið einnig einn stærsta kjötskóla Evrópu í París, þar sem 3.000 nemendur stunda nám.
Þátttaka Íslands á mótinu fólst því ekki aðeins í keppninni sjálfri heldur jafnframt til að freista þess að auka sýnileika og virðingu greinarinnar bæði heima og erlendis.
Í meðfylgjandi myndbandi má sjá þegar kynnar mótsins leggja leið sína að íslenska hópnum og skyggnast bak við tjöldin.
Meðfylgjandi mynd var tekin á Minni framtíð í Laugardalshöll á dögunum.