Ókeypis vefnámskeið í boði IÐUNNAR

IÐAN fræðslusetur hefur ákveðið að bjóða meðlimum upp á ókeypis vefnámskeið í tilefni 15 ára afmælis setursins. Í frétt á vef IÐUNNAR kemur fram að COVID hafi breytt starfinu verulega. Ákveðið hafi verið að stórefla stafræna þjónustu til þeirra sem kjósa fjarnám eða vefnám og þannig sveigjanleika í sinni símenntun.

Námsframboð haustannar tekur mið af þessum áherslum þó áfram sé öflugt staðnám einnig í boði. Aukið framboð er nú á vefnámskeiðum og einnig fjarkennslu á staðbundnum námskeiðum þar sem því er komið við. „Í tilefni af 15 ára afmælisári IÐUNNAR bjóðum við félagsmönnum á vefnámskeið endurgjaldslaust.“

Líklegt er að sóttvarnatakmarkanir verði í gildi á landinu að einhverju marki á komandi mánuðum. IÐAN boðar að starfið muni alltaf taka mið af þeim. „Við hlökkum til að taka á móti ykkur í haust og kynna fyrir ykkur skemmtilegar nýjungar til að styðja ykkur í námi og starfi.“

Námskeið framundan

Minna má á að tvö námskeið á matvæla- og veitingasviði verða kennd í byrjun október. Annað þeirra nefnist framlínustjórnun í veitingahúsum og er kennt 4. október. Þar er markmiðið að auka færni millistjórnenda og vaktstjóra í veitingahúsum. Fjallað er um verkefni millistjórnenda, ábyrgð stjórnenda, samskipti á vinnustað, um starfsmannamál, um leiðir til að takast á við erfið mál, að stýra hópi jafningja, mannauðsmál, verkefnastjórnun  og um önnur hagnýt atriði sem nýtast í starfi stjórnefnda. Hér má skrá sig.

Þetta sama námskeið er kennt á ensku 5. október. Hér má skrá sig.

Þann 6. október fer svo fram námskeið um ferska salatbari. Það er ætlað þeim sem annast salatbari á veitingahúsum og í mötuneytum. Á námskeiðinu er farið yfir meðhöndlun á hráefni, hvernig megi breyta áherslum og uppsetningu á salatbörum með einföldum hætti, fjallað verður um hráfæðissalöt, vegan salöt, hvernig hægt er að bæta nýtingu hráefnis ofl.  Námskeiðið er í formi sýnikennslu og gert er ráð fyrir virkri þátttöku og umræðum yfir netið. Hér má skrá sig.