Samflot iðnaðarmanna vísaði kjaradeilu sinni til Ríkissáttasemjara 25. febrúar og var fyrsti fundur hjá Ríkissáttasemjara haldinn þann 28. febrúar síðastliðinn. Nú eru tæpar tvær vikur frá því formlegur fundur var haldinn en tímabilið var notað til vinnufunda undir stjórn sáttasemjara en samkvæmt lögum ber Ríkissáttasemjara að boða til formlegra funda að minnsta kosti á tveggja vikna fresti.

Boðað hefur verið til formlegs fundar á morgun, þriðjudag, þar sem farið verður yfir stöðuna. Ef Samtök atvinnulífsins koma ekki með innlegg í kjaradeiluna á fundinum á morgun þá eru allar líkur á því að bókaður verði árangurslaus fundur, sem þýðir að samninganefndir iðnaðarmanna þurfa að undirbúa næstu skref í kjaradeilunni til þess að auka þrýsting á viðsemjendur.

Viðræðunefnd samflots iðnaðarmanna hefur látið reyna á kjaraviðræður án þess að beita þyrfti meira afli en ljóst er að þær viðræður hafa ekki dugað til og því er nauðsynlegt að undirbúa næstu skref ef ekkert annað kemur fram.