MATVÍS bauð félagsmönnum sem eru 65 ára og eldri í árlega haustferð fimmtudaginn 30. Ágúst 2018. Að þessu sinni var stefnan tekin á Vestmannaeyjar.

 

Pétur Sturluson og Hörður Adólfsson komu að skipulagningu þessarar ferðar með starfsmönnum félagsins. Ferðin hófst kl. 10:00 frá Stórhöfða 31 og haldið var í Landeyjarhöfn. Meðan beðið var eftir Herjólfi  dró Pétur fram samlokur sem hann hafði fengið gefins í ferðina frá Dagný & co og öl sem Rauða ljónið gaf til ferðarinnar.

Siglingin með Herjólfi tók ekki nema rúmar 30 mínútur en vegna bilunar í vökvabúnaði þurftum við að bíða um 30 mínútur í ferjunni. Það var meiriháttar fallegt að sigla inn innsiglinguna með Heimaey á hægri hönd og sjá hvað hraunið úr gosinu 1973 hefur verið nálægt því að loka innsiglingunni.

 

Þegar í land var komið í Vestmannaeyjum beið okkar rúta sem fór með okkur á veitingahúsið Gott þar sem dýrindis  fiskur var borin á borð fyrir okkur. Siggi Gísla og frú sem eiga veitingastaðinn buðu upp á bjór sem heitir Heimir og er bruggaður í Eyjum.

Frá Gott var haldið í rútuferð um Eyjuna. Hörður sagði okkur frá því sem fyrir augu bar í ferðinni af sinni alkunnu snilld.

 

Næsta stopp var í verksmiðjunni hjá Grími kokk þar sem Grímur tók á móti okkur og gaf að smakka hluta af þeirri framleiðslu sem fyrirtækið er með til sölu og sagði frá ferli og rannsóknum sem þeir hafa verið að gera til þess að hafa vöruna sem besta og hollasta.

 

Gosminjasafnið var heimsótt og gefin góður tími til þess að skoða myndir og hlusta á frásagnir af atburðarrásinni eins og hún var 1973. Það var stórkostleg upplifun að fara í gegnum safnið.

 

Þá lá leiðin niður á höfn þar sem Herjólfur beið okkar. Þegar á meginlandi var komið var stefna tekin  í átt að Reykjavík með viðkomu á Hótel Rangá þar sem Bragi yfirkokkur staðarins var tilbúin með frábæran kvöldmat fyrir hópinn.

 

Við voru 24 í ferðinni og ég veit ekki annað en allir hafi notið ferðarinnar.

 

Ég vil þakka félaginu og þeim sem komu að skipulagningunni kærlega fyrir og bíð spenntur eftir næsta hausti.

 

Kveðja

Níels S. Olgeirsson