ASÍ

Aðgerðir vegna samdráttar á vinnumarkaði

 

Mikil óvissa ríkir nú á íslenskum vinnumarkaði eftir að lýst hefur verið yfir heimsfaraldri vegna kórónuveirunnar. Nú þegar hefur orðið mikill samdráttur í ferðaþjónustu og tengdum atvinnugreinum og stöðugt berast upplýsingar um aðgerðir erlendis frá sem leiða til frekari samdráttar. Hér er um fordæmalausar og tímabundnar aðstæður á vinnumarkaði að ræða sem mikilvægt er að bregðast hratt við af festu og framsýni.

 

Markmið ASÍ er að verja launafólk og fyrirtæki vegna tímabundinna áfalla þannig að einstaklingar verði fyrir sem minnstum skaða, bæði fjárhagslegum og félagslegum, og að fyrirtæki komist í gegnum tímabundinn samdrátt og komi sterk til baka þegar úr rætist. Mikilvægur þáttur þess er að fyrirtæki grípi ekki til uppsagna eða aðgerða sem ganga á rétt starfsmanna. Það gildir jafnt um íslenskt og erlent launafólk.

 

Nú er unnið að löggjöf sem gerir ráð fyrir að fyrirtæki geti samið tímabundið við starfsfólk sitt um skert starfshlutfall en að starfsmenn fái á móti greiddar atvinnuleysisbætur. Útfærsla á slíkri löggjöf liggur ekki fyrir en þess er vænst að ný lög um þetta efni verði samþykkt síðar í þessari viku.

 

Stéttarfélögin munu upplýsa félagsmenn sína um efni laganna um leið og það liggur fyrir og leiðbeina félagsmönnum sínum um framhaldið. Við hvetjum launafólk til að fylgjast vel með framvindu mála og bíða með að ganga til samninga við atvinnurekendur sína um mögulegar aðgerðir þar til þetta liggur fyrir.